Það hefur verið mér hugleikið undanfarið hvers vegna fólk dæmir (fólk og aðstæður). Ég þarf í raun ekki að hugsa lengi til að sjá og vita að þetta er einhvers konar varnarviðbragð og kannski helst notað til að breiða yfir eigin vanmátt. Þ.e. að í stað þess að mæta fólki út frá hlutlausum stað, þá leggjum við eins konar mat á aðstæður og gerðir annarra sem er ekki okkar að dæma.

Á sama tíma og ég velti þessu fyrir mér fékk ég mikla löngun til að leggjast yfir hugleiðslur fyrir hlutlausan huga og setti í kjölfarið á tveggja kvölda hugleiðslunámskeið þar sem við styrkjum þennan hlutlausa huga. En hlutlausi hugurinn er einn af þremur huglægum líkömum jógafræðanna samkvæmt Kundalini jóga. Hinir huglægu líkamarnir eru jákvæði og neikvæði hugurinn. Allir jafn mikilvægir séu þeir í jafnvægi, en einn mikilvægastur til að notast við við ákvarðanatökur.

Hlutlausi hugurinn rís upp yfir málefni og smáatriði heimsins og færir þér hlutlausari, en á sama tíma kærleiksríkari nálgun á þína bestu mögulegu leið. Sterkur hlutlaus hugur getur metið bestu mögulegu stefnu á innan við 9 sekúndum.
Veikur hlutlaus hugur merkir að þú heyir báráttu milli jákvæða og neikvæða huga þíns. Þú ert áhrifagjarn, átt erfitt með að gera upp hug þinn, festist í huglægu stríði við sjálfan þig og upplifir þig á barmi tilfinningalegs rússíbana.
Hlutlaus hugur hægir á þessu ferli og leyfir þér að koma frá hlutlausum, kærleiksríkum og tryggum stað.

Grunnur minn í mannfræði gerir það síðan að verkum að ég á erfitt með að líta ekki hverja stund (sem ég fæ að sjá og upplifa af mannlegum samskiptum) rannsóknaraugum, þá sérstaklega hversdagslega hluti eins og kaffistofuspjall og/eða önnur samsæti milli tveggja aðila eða fleiri. Þá er sérstaklega mikilvægt fyrir mig að hafa sterkan hlutlausan huga til að mæta fólki og aðstæðum af samkennd og muna að það er ekki mitt að dæma.