Gullkistan – sjálfsefling fyrir stelpur

Gullkistan – sjálfsefling fyrir stelpur

Gullkistan

Gullkistan er námskeið fyrir stúlkur í 6. og 7. bekk Borgarhólsskóla. Kennarar eru Sólveig Helgadóttir ACC markþjálfi frá Sól Markþjálfun á Akureyri og Huld Hafliðadóttir jógakennari og eigandi Spirit North hugleiðsluseturs.

Um námskeiðið

Árin fyrir unglingsárin geta verið erfið og flókin, þegar maður er hvorki barn lengur né unglingur, hvað þá fullorðinn ennþá. Tilfinningalífið er flókið og hormónastarfsemin að breytast. Allt þetta og meira til (samfélagsmiðlar, vinahópar, hitt kynið ofl.) kallar á mikinn stuðning við stúlkur á þessum aldri og teljum við að styrkleika- og sjálfseflingarnámskeið sem þetta geti hjálpað þeim á marga vegu og stutt þær til að fara sterkari og öruggari út í lífið.

Námskeiðið er fimm skipti 75 mínútur í senn. Kennt er fimmtudagana 6. febrúar, 20. febrúar, 27. febrúar og 5. mars. Lokaskipti námskeiðsins verður síðan 2. apríl þar sem við hittumst og förum yfir efni námskeiðsins og hvernig það hefur nýst í daglegu lífi. Þannig fá stelpurnar tækifæri til að æfa sig í að nýta verkfæri Gullkistunnar.

Það sem við leggjum áherslu á á þessu námskeiði er:

Betri sjálfsþekking
Meira sjálfstraust
Skýrari sýn á sjálfa sig og aðra
Verkfæri til að auka innri ró
Verkfæri til að ná valdi á huga sínum og hugsunum
Hugaræfingar (eins og þakklætisæfingar) til að taka með sér heim á milli tíma

Þá munum við einnig nýta styrkleikaspilin „Vertu sjálffræðingur“  til að efla sjálfsþekkingu og styrkleika.

Heiti námskeiðsins; Gullkistan, vísar í þau verkfæri sem stúlkurnar fá að kynnast og æfa sig að nota. Á þessum og komandi árum í lífi þeirra gætu þau verið gulls ígildi, auk þess sem heitið er eftirminnilegt og gæti minnt á sig í hinum ýmsu aðstæðum.

Þátttökugjald fyrir hvern þátttakanda er 12.000 kr. Hægt er að nýta frístundastyrk Norðurþings til að greiða námskeiðið að hluta eða fullu. Skráning og greiðsla fer fram í gegnum Nórakerfi Norðurþings: www.nordurthing.felog.is 
Ef fjöldi fer yfir 12 stúlkur verður hópnum aldursskipt. 

Um kennarana

Sólveig er ACC vottaður markþjálfi, hún hefur starfað sem slíkur í 4 ár og hefur á þeim tíma lagt mesta áherslu á að aðstoða ungt fólk. Ásamt því að taka á móti fólki í einkaviðtöl hefur hún haldið fjölda námskeiða og erinda. Hún var verkefnastjóri og kennari hjá SÍMEY yfir Stökkpalli, 10 vikna námskeiði fyrir atvinnulaust ungt fólk og einnig hefur hún verið með námskeið hjá Ungmennahúsi í Rósenborg. Sólveig setti saman áfanga fyrir Menntaskólann á Tröllaskaga í haust og kenndi þar sjálfseflingu. Hækkuðu nemendur sjálfstraust sitt um tvo heila á skalanum 0-10 á þessari viku sem áfanginn var kenndur. Þá gaf hún út verkefnabók síðastliðið vor til þess að hjálpa fólki að stilla hugann fyrir hvern dag, bókina “Í DAG bók”. Þessa dagana vinnur hún að útgáfu nýrra íslenskra styrkleikaspila “Vertu sjálffræðingur”, ásamt samstarfskonu sinni, sem styðja við sjálfseflingu og verða notuð á námskeiðinu meðal annars til að: auka sjálfsþekkingu, auka vitund og bæta sjálfstraust.

Huld hefur kennt jóga og hugleiðslu á Húsavík síðastliðin 10 ár. Hún hefur kennt breiðum aldrushópi, eða allt frá leikskólabörnum til eldri borgara. Þá hefur hún kennt í nágrannasveitum, haldið sérnámskeið m.a. fyrir VIRK starfsendurhæfingu og vinnustaði og fært jóga inn á skrifstofur. Hún hefur kennt reglulega í leikskólanum Grænuvöllum, Borgarhólsskóla og Framhaldsskólanum á Húsavík, bæði nemendum og kennurum, en hún er með kennsluréttindi í barnajóga á vegum Childplay Yoga og Radiant Child Yoga. Huld hefur undanfarin ár lagt áherslu á hugleiðslu og slökun sem mikilvægan þátt í lífi fólks og boðið upp á hagnýtar aðferðir til núvitundar.

12.000 kr.