Á fimmtudag hélt ég ásamt fallegum hópi fólks í fyrstu (af vonandi mörgum) jógaferðum til Flateyjar á Skjálfanda. Með í teyminu mínu voru mín kæra Arnbjörg Kristín, gong-snillingur með meiru, og vinkona hennar Kristín Björk sem sá um matseldina. Þá voru fimm þátttakendur skráðir í ferðina sem á endanum var hinn fullkomni fjöldi fyrir þessa fyrstu ferð.

Dagskráin okkar var nokkuð vel útsett en fljótlega varð okkur ljóst að algjört tímaleysi myndi einkenna ferðina. Flestar konurnar tóku af sér úrin og lögðu símunum, enda lítið símasamband og ekkert rafmagn í húsi til að hlaða símana, nú eða önnur rafmagnstæki, (eitthvað sem við vissum í raun ekki fyrr en við komum á staðinn og mátti því blandarinn góði, smoothie-arnir og kekkjalausu súpurnar bíða betri tíma!).

 

Við komum í eyjuna um kl. 10 á fimmtudagsmorgni og urðum strax yfir okkur hrifnar..
þvílíkur andi á þessari eyju. Við komum okkur fyrir og hófum dagskrána á því að setjast í hring, kynna okkur og deila ástæðu þessa að við vorum mætt á þennan stað á þessari stundu og hvað við ætluðum helst að vinna með þessa daga. Við drukkum hreint kakó frá Gvatemala og settum okkur ásetning fyrir dvölina.

Eftir dásemdar nærandi hádegisverð tók við kærkomin slökun og þar á eftir tók við gönguferð um eyjuna. Þvílík og önnur eins dýrð!

Við gengum upp í vitann og settumst á bjargsbrún í félagsskap lundanna. Kríurnar létu líka vita af sér. Þegar heim var komið nutum við jógaflæðis og eftir kvöldverðinn var boðið upp á gongslökun undir berum himni sem hélt áfram þegar heim var komið. Á föstudeginum týndum við okkur í flæðinu.. tíminn skipti ekki máli og við borðuðum hádegismatinn um þrjú leytið og kvöldmatinn um 23. Já, þannig var nú það. Í millitíðinni vorum við leidd í létta Kundalini jóga kriyu, Chi-Gong æfingar, kyrjuðum möntrur við fullkomin hljómgæði í vitanum, gengum norður alla eyjuna og fundum leifar af sólarrannsóknastöð Stjörnu-Odda. Slökuðum við hljóma gonganna tveggja og eftir kvöldverðinn, sem (eins og áður kom fram) var algjörlega í flæðinu, um 23 leytið, tók við miðnætur-sjósund í dásamlegri og tærri vík.

Þvílík paradís sem þessi eyja er!

Hér koma nokkrar myndir úr ferðinni sem allar segja meira en þúsund orð.

 

Síðasta daginn, laugardaginn, byrjuðum við á léttu jógaflæði, pökkuðum saman og skiluðum af okkur húsinu og enduðum að sjálfsögðu aftur í sjósundi.

Við vorum öll sammála um að #slökuníflatey og #magicalflatey yrði aftur að ári!