Sumarsólstöður
Sumarsólstöður eru sá tími ársins þegar sólargangurinn er lengstur og sól hæst á lofti á norðurhveli jarðar. Sumarsólstöður eru á tilteknu augnabliki 20. eða 21. júní ár hvert og í ár 2018 eru þær klukkan 10:07 að íslenskum tíma fimmtudaginn 21. júní. Hefð hefur skapast innan Kundalini jógasamfélagsins á alþjóðavísu að halda sumar- og vetrarsólstöðuhátíð og er sólstöðum fagnað í um þrjá daga fyrir og þrjá daga eftir sólstöðurnar sjálfar.
Alþjóðlegur jógadagur og alþjóðlegur friðardagur
Í desember 2014 ákváðu Sameinuðu Þjóðirnar að 21. júní ár hvert yrði alþjóðlegur jógadagur. Það var gert af frumkvæði Narendra Modi forsætisráðherra Indlands. Alþjóðlegur dagur fyrir friðarbænir er einnig haldinn hátíðlegur á sama tíma sérstaklega meðal indjána í Norður Ameríku. Sumarsólstöður eru haldnar hátíðlegar meðal margra þjóðerna og mikil hefð er fyrir hátíðarhöldum meðal frumbyggja á þessum degi. Þessi árstími er einnig talinn sérstaklega góður til að ná tengingu við náttúruna og móður jörð.
Á sumarsólstöðum er gott að staldra við og gefa sér færi á að skapa nýjar venjur og losa sig við vana sem hamla okkur á einhvern hátt. Við söfnumst saman úti í náttúrunni til þess að hlusta betur á móður nátttúru og tengja inn á við með það að markmiði að skapa rými fyrir frið, innra sem ytra.
Jóga til góðs
Á Húsavík er hlaupið til góðs á Sumarsólstöðum, að kvöldið fimmtudagsins 21. júní, í ár til styrktar ungum dreng; Ívari Hrafni Baldurssyni sem hefur glímt við erfið veikindi allt frá fæðingu með tilheyrandi kostnaði. Mig langar til að bjóða upp á jóga á sumarsólstöðum, undir berum himni í fallega Skrúðgarðinum okkar, einnig til styrktar Ívari litla, föstudaginn 22. júní kl. 16:30.
Hvar: Í Skrúðgarðinum, rétt norðan við Kvíabekk
Hvenær: Föstudaginn 22. júní kl. 17:00 – 18:15
Hvað kostar: 1500 kr. en frjáls framlög líka velkomin