Er ég að verða eins og mamma?

Æji, hann er bara alveg eins og pabbi sinn.

Eru þetta tilviljanakenndar spurningar, orðfæri, athugasemdir?

Nei, ég held ekki. Að ákveðnu leyti erum við eins og foreldrar okkar, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

 

Þegar við ölumst upp, þá lærum við af foreldrum okkar eða uppalendum. Við lærum bæði meðvitað og ómeðvitað. Við lærum sérstaklega það sem við sjáum fyrir augum okkar og hvernig það lætur okkur líða. Við lærum viðbrögð og orðfæri. Við lærum matarvenjur og aðra siði.  Við lærum líka hugsana- og hegðunarmynstur.

Ég las viðtal við Kristínu Maríellu sem heldur úti vef og vinsælum námskeiðum um RIE (Respectful parenting) eða virðingarríkt tengslauppeldi og ég hjó eftir þessum orðum hjá henni, vegna þess að ég trúi því að þetta sé rétt:

„Fyrir mér byrjar þetta og endar allt hjá okkur sjálfum. Hver við erum sem fyrirmyndir barnanna okkar skiptir einfaldlega öllu máli og mér finnst við ættum öll að eyða miklu meiri tíma í að ala okkur sjálf upp heldur en að ala börnin okkar upp!

Til þess að geta mætt krefjandi hegðun barnanna okkar með yfirvegun og öryggi þá þurfum við að vinna stöðugt í okkur sjálfum sem byrjar á því að vera í tengslum við okkar eigin tilfinningar og skoða ósjálfráðu viðbrögðin okkar.

Alltaf að spyrja okkur sjálf „Af hverju fer þetta svona í taugarnar á mér?“, „Vá, af hverju snöggreiðist ég svo mikið þegar þessi hegðun kemur upp?“, „Hvað veldur því að ég eigi svona erfitt með það til dæmis þegar barnið mitt grætur og finnur fyrir því að ég vilji helst gera hvað sem er til að það hætti?“

Langoftast eru þetta lærð, ósjálfráð, viðbrögð úr okkar eigin uppeldi og vinnan felst að miklu leyti í því að „endurforrita“ okkur sjálf upp á nýtt og sjá börnin okkar og hegðun þeirra í nýju ljósi. Við setjum þeim alltaf mörkin sem þau þurfa en þegar óæskileg hegðun kemur upp þá sjáum við þau ekki sem „óþekk“ eða „vond“, heldur skiljum það að hegðun er alltaf tjáning.“

Það er einmitt okkar sem foreldra og fullorðinna einstaklinga að læra að þekkja hvað það er í okkur sjálfum sem við þurfum ekki á að halda úr okkar uppeldi. Er það dómharka? Var pabbi þinn kannski aldrei nógu ánægður með það sem þú gerðir? Eða er það framtaksleysi? Agaleysi? Skortur á jákvæðni í eigin garð? Skortur á sjálfstrausti?

Hvað sem það er sem við höfum tekið með okkur sem veganesti út í lífið, þá þurfum við fyrst og fremst að skoða a) hvernig það nýttist okkur sem börn og í uppvextinum (lét dómharka annarra þér líða eins og þú værir ekki nóg eða værir misheppnuð/aður? Líður þér kannski ennþá stundum þannig?) og b) hvort það nýtist okkur í dag? Erum við að hjálpa okkur sjálfum og öðrum (börnum okkar, fjölskyldu og vinum) með þeim kostum (göllum) sem við erfðum frá foreldrum okkar?

Ef svarið er nei, þá þurfum við hugarfarsbreytingu, eða eins og Kristín sagði: að endurforrita okkur sjálf og sjá börnin okkar og hegðun þeirra í nýju ljósi.

Gangi okkur vel <3