Að koma í kyrrð og kveðja í kyrrð
Þegar við iðkum jóga, stígum við skref inn og heim. Inná við og heim í friðinn og stilluna. Við minnum okkur á að djúpt innra með okkur ríkir stilla; kyrrð og ró sem við gleymum gjarnan í skarkala dagsins.
Það er því gott að líta á jógadýnuna sjálfa sem nokkurs konar griðastað, stað sem við getum mætt á og mætt okkur sjálfum. Verið ein með okkur sjálfum, þrátt fyrir að deila rými með öðrum jógasálum.
Að koma í kyrrð og kveðja í kyrrð er góð venja og minnir okkur á þegar við stígum inn í jógasalinn eða á dýnuna okkar, erum við mætt á griðastaðinn.
Þar sem við skiljum skarkala hversdagsins eftir fyrir utan og leitumst við að lægja öldur hugans. Þannig getum við einnig sýnt nágrönnum okkar og samferðafólki á næstu dýnu tillitssemi, sem deila rýminu með okkur á þessu magnaða ferðalagi.
Recent Comments