Um nýliðna helgi tók ég þátt í svo mögnuðu hlédragi (mér líkar íslenska orðið hlédrag vel fyrir enska hugtakið retreat) með 15 öðrum dásamlegum konum á bænum Karlsá, rétt fyrir utan Dalvík. Um var að ræða fyrsta retreat hjá Tinnu og Láru í Andagift, Súkkulaðisetri. Yfirskrift hlédragsins var Villikellingar – en í vetur hefur Tinna leitt sjálfseflandi kvennanámskeið undir sömu yfirskrift. Villikellingar – vá, bara orðið eitt fær mann til að sperra eyrun.

 

              

Það er eitthvað svo óumdeilanlega magískt þegar konur koma saman í krafti sínum og kærleik. Það myndaðist svo mögnuð orka, svo dásamlegt systraslag milli okkar allra, sumra hverra sem vorum að hittast í fyrsta skipti.

 

Helgin var að sjálfsögðu innsigluð með helgum kakóbolla (ceremonial cacao) frá hinum frjósömu regnskógum Gvatemala, en kakóið er hrein og óunnin náttúru afurð og oft kölluð guðafæða. Maya indjánar suður Ameríku kalla drykkinn blóð hjartans, en hann er talinn hafa hjartaopnandi eiginleika og er kakóplantan auk þess ein magnesíum-ríkasta planta jarðar. Semsagt, róandi hjartaopnun einkennir þennan töfradryk – og það magnaða við hjartaopnun er öll gleðin og þakklætið – sannkallað bliss!

 

 

Á laugardeginum fengum við til okkar hina mögnuðu Valgerði H. Bjarnadóttur, sem stúderað hefur hin ýmsu kyngimögnuðu fræði, meðal annars shamanisma, gyðjur og drauma og deildi hún með okkur góðum ráðum og sögum úr viskubrunni sínum. Við nutum þess sannarlega að brúa bil kynslóðanna með þessum brautryðjanda, dugmikla kennara og kjarnakonu sem hún er! Þvílík fyrirmynd og hugdirfska. Vá.

Á fullu tungli á sunnudeginum var okkur ekki rótt fyrr en við höfðum keyrt yfir í Hauganes og skellt okkur í sjósund.. naktar flestar – að sjálfsögðu – og fengu shamanísku trommurnar að hljóma undir máttugum möntrusöng til hyllingar henni Mánu/Lúnu.

 

 

Mér leið eins og ég væri að kveðja gamlar vinkonur, þegar koma að því að kveðja seinni part sunnudags. Kveðja þessar konur sem höfðu deilt með mér sínum dýpstu þrám, gleði og sorgum þess daga. Kærleikurinn er svo magnað fyrirbæri og ef hann er stundaður af alúð og óttaleysi, þá finnurðu hann víbra í frumunum þínum. Og það sem meira er, þú finnur hann breyta lífið þínu.. skref fyrir skref, bros fyrir bros, þakkarorð fyrir þakkarorð.